Jæja, annað blogg til að forða ykkur fáu fastagestum hér á síðuna frá langri og leiðingjarnri bunu um líf mitt hér, sem rennur saman í eitt þar sem ég verð fljótt leið á að útskýra hvern einasta hlut. Ég hef samt á tilfinningunni að þetta gæti orðið smá langt, þannig endilega, gangið aðeins um áður en þið stirðnið fyrir framan tölvuna, fáið ykkur epli (eða fyrir suma, nammi (Ókei, flesta)). Setjist svo endilega aftur niður og njótið ferðarinnar.
Sælir verið þið kæru lesendur. Ekki hefur liðið langur tími, en stuttu eftir seinasta blogg gerðist eitthvað sem hreyfði við stórborgarsál fólksins hér, en þrjú lítil börn voru myrt í þessari viku. Ég veit ekki smáatriðin, en af því sem móðir mín sagði mér þá var allavega einn strákur 9 ára gamall og annar sem var 6 ára, en kærasti móður hans ákvað að myrða hann vegna rifrildis milli hans og móður drengsins. Svona er lífið. Það heldur áfram, en annað en á vissri klakalagðri eyju, þá var þessu fljótt gleymt og tók ekki yfir meirahluta komandi fréttablaða og sjónvarpsfrétta.
Um helgina var svo farið til Gr. Roca, bær í 40 mínútna fjarlægð frá Neuquén þar sem föðurfjölskylan heldur Asado aðra hverja helgi. Það var auðvitað steikjandi hiti þannig við tókum með okkur þau sundföt sem við þurftum og drifum okkur strax ofan í ískalda sundlaugina sem þau eru með í garðinum, okkur til mikillar lukk. Frábær dagur, þar sem ég einungis slakaði á og naut kalda vatnsins ásamt ljúffengu Asado. Alls konar kjöt var borið fram, grillað yfir eldi og jafnvel heill svínsskrokkur! Síðan er alltaf eftirréttur, en það var nú lítið úr því þar sem móðir mín gleymdi að gera Tiramisú kvöldið áður og þurfti fólkið að sætta sig við ávaxtasalat, sem var þó ekki slæmt með góðum skammti af rjóma.
Um leið og var komið heim, sem var um átta leytið, eftir að skotist var út í bakarí og keypt alls konar gotterí handa krökkunum (það varð múgæsingur þegar 10 krakkar hlupu að einni manneskju haldandi á gotteríi), þá skipti ég um föt, safnaði saman dóti í poka og dreif mig til vinkonu minnar. Þessi umtalaða vinkona mun vera Lilja, skiptinemi frá Noregi sem er alveg mesta yndið. Okkur kemur vel saman þar á meðal vegna sameiginlegra hefða frá norðurlöndunum. Til þess má geta að við báðar söknum stóru, þykku, hlýju dúnsængnanna okkar! Svo ekki sé minnst á kósýkvölda. Þið Íslendingar vitið alveg hvað ég meina, þar sem til er nú lag um það á þessari guðblessuðu eyju okkar.
Já, við erum að tala um kósýkvöld, kósýkvöld þar sem valdar eru bíómyndir, þættir, hvað sem er. Valið er fólk (Því ekki allir eru hæfir í kósýkvöld) og er svo haldið í hefðbundna ferð út í sjoppu og keypt vandræðalega mikið af óhollyndum. Þegar þið síðan flýið undan ávítandi augnaráði afgreiðslumannsins haldiði heim á leið til að byggja ykkur upp hreiður. Þá erum við að tala um alla tiltæka kodda í húsinu ásamt öllum þeim teppum og dúnsængum sem þið getið fundið.
ATH.
- Finna þarf ALLAR fjarstýringar áður en er sest niður í hreiðrið.
- ALLIR þurfa að fara á klósettið áður en myndin/þættirnir eru settir af stað, svo að ekki þurfi sífellt verið að stoppa.
- Nammið skal vera raðað upp á borði, sem skal vera upp við sófabrúnina, svo ekki þurfi að teygja sig.
- Náttföt eru nauðsyn.
Jæja. Ég og Lilja gerðum nákvæmlega þetta, en hér er ekki algengt að fólk kaupi nammi eða gotterí með mynd. Hér er ekkert sem heitir kósýkvöld. Þannig að þegar við fórum út í sjoppu til að kaupa vandræðalega mikið nammi var öll sjoppan og afgreiðslumaðurinn sjálfur hneykslaður á magni gotterísins, þó að venjulegur Íslendingur hefði ekki kippt sér upp við þetta. Því næst byggðum við okkur hreiður, en auðvitað án þykku dúnsænganna okkar. Það varð að duga að safna teppum og koddum. Því næst var sett í tækið The Pianist en þá mynd get ég kallað meistaraverk (einnig þess virði að nefnast á það að í sömu viku horfði ég á La Vida es Bella og The boy in the striped pyjamas og mæli eindregið með þeim öllum þrem fyrir þá sem hafa ekki séð þær. Allar um seinni heimstyrjöldina).
Brb, þarf að drepa hlussukónguló sem var að birtast hér í herberginu.
Þríf klessuna upp á morgun. Allavega, þegar við fórum að sofa gengum við inn í herbergið og á okkur réðst kakkalakki á stærð við stórutánna á mér! Lilja kallaði upp en ég var fljót til og tók hvítu skónna hennar og barði einu sinni, tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, fimm sinnum! Þar til kakkalakkinn hætti loks að hreyfa sig. Eftir það skemmti ég mér við þá tilhugsun að ég svo gott sem myndi sofa á gólfinu þá nótt, á dýnu sem var 5 cm þykk. Sofnaði ég nú samt nokkuð fljótt því að Lilja er með loftkælingu í herberginu sínu! Held að þetta hafi verið í fyrsta skiptið í langann tíma sem ég gat sofið með ábreiðuna yfir mér! Ó, grimma loftslag, hví leyfirðu mér ei að sofa góðum nætursvefni?
Svo vildi til, að á mánudaginn eftir að öll familían var komin heim frá ánni (þar sem ég btw fékk einhverjar tanlínur í fyrsta skipti síðan ég fór til Spánar fyrir góðum 3 árum) þá fór litla systir mín að dunda sér við 100 bita prinsessu púsl. Hún bað mig síðan um að hjálpa og ég, verandi púsl sjúk, settist strax niður. Seinna kom mamma okkar og hún víst verandi líka púsl sjúk, settist niður og við hjálpuðumst að, og það endaði á því að greyið litla systir mín dró sig út og fór bara og fékk sér að borða. Mér og móður minni til mikilla vonbrigða vantaði svo 7 stykki og því gátum við ekki klárað. Hinsvegar á móðir mín víst 1000 bita púsl og við ætlum vonandi að fara að strögglast með það á næstunni.
Ég fékk svo senda ávísun á að ég ætti kort og pakka í pósti. Hífði ég mig upp á föstudeginum klukkan 8 til að fara niður á pósthús, en ég get víst bara sótt alþjóðlegar sendingar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum milli 8 og 12 (Til að minnast á það einhvers staðar, þá bjóst ég við 3 bókum sem áttu eftir að koma úr bókasendingunni miklu, en það er semsagt hringadróttinssaga). Fór þangað, rétti konunni ávísunina og rétti hún mér þá bara aðra ávísun, sem var semsagt kortið inni í sendingunni. Þessi ávísun sagði mér að koma seinna og sækja pakkann. Ég skildi ekkert í þessu kjaftæði, en ákvað að ég nennti ekki að pæla í þessu og gekk þá heim. Allt í fína. Síðan í morgun vaknaði ég klukkan 7, fór í spinning og eftir á skokkaði ég á pósthúsið með ávísunina. Beið í röð og rétti svo konunni ávísunina ásamt vegabréfinu mínu (sá til þess að ég gleymdi því EKKI í þetta skiptið). Hinsvegar virðast þessir Argar alltaf finna sér ástæðu til að gera vesen og ákvað konan þá að ég þyrfti að vera 18 ára eða eldri, eða í fylgd með 18 ára eða eldri til að geta tekið á móti sendingunni MINNI. Lenti ég þá í 10 mínútna rifrildi við konuna, þar sem ég hafði augljóslega mætt tvisvar áður og aldrei verið vandamál með aldurinn minn. Hún gaf sig ekki og þurfti ég enn og aftur að yfirgefa póstinn. Ég er búin að fá upp í kok af þessu kjaftæði þeirra, en ekki get ég gert neitt, þeir hafa í haldi kæru bækurnar mínar.
Jæja, ég sæki þær á föstudaginn ásamt móður minni, en við erum akkúrat núna að stússast í að senda pakka til Íslands með jólagjöfum og gotteríi frá Argentínu. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ættum við að geta sent þetta á föstudaginn. En þetta er Argentína, þannig ég býst ekki við því. En við sjáum nú bara til með það, kæra íslenska fjölskylda sem mun vera að lesa þetta, bíðandi í örvæntingu eftir guðsendingunni frá Argentínu.
Annað, fyrst að mín kæra fjölskylda er að lesa þetta, vil ég minnast á það að næst þegar þið sendið mér pakka væri fínt ef þið mynduð stíla hann á einhvern annan fjölskyldumeðlim hérna, eins og t.d. systur mína eða móður, þar sem ef þið stílið á mig mun ég þurfa að borga aukakostnað.
Í dag átti ég svo að fara með frænku minni, systur móður minnar sem heitir Tamara, í 3 klst málningatíma hjá vinkonu hennar, en hún er víst með flotta tíma á góðu verði og ég þrái að mála! Var búin að hlakka til í allan dag til að fara í þennan prufutíma minn og það kom mér ekki mikið á óvart þegar hún kom ekki á réttum tíma, enda eru Argar óttalega seinir að öllu. En síðan beið ég og beið og hún kom svo ekki. Ég var föst í að passa litlu systur mína og tvíburana hennar frænku minnar og dagurinn fór í ekki neitt. Ég komst síðan seinna að því að hún hafði lent í óvæntu yfirliti í vinnunni, þar sem að menn voru að taka í gegn hvern og einn starfsmann og skoða fyrirtækið, öllum að óvöru. En hún lofaði mér að við færum á morgun, þannig ég hef þó eitthvað að hlakka til á morgun!
Ég og systir mín eigum í smá deilu eins og er, en við deilum herbergi. Þannig er það að á næturna er aðeins kaldara en á daginn, þannig það hjálpar að opna gluggann og því geri ég það oftast, en systir mín lokar honum jafn óðum því henni verður kalt á meðan ég stikna ef hann er ekki opinn á næturna. Ég hef ófáu sinnum vaknað upp í svitabaði vegna hita og eins og ég hef minnst á áður, þá sef ég aldrei með ábreiðuna á mér. Systir mín hefur ábreiðuna ásamt auka teppi og laki, sem hún notar að hálfu. Ef að glugginn er opinn get ég actually sofið en þá verður henni svo kalt. Við erum búnar að skiptast aðeins á en hún er farin að taka upp á því að sofa í herbergi bróður míns, sem er akkúrat núna að ferðast til Mendoza. Smá vesen hér á ferð.
Annars, lítill hlutur, er byrjuð að syngja randomly lög. Þá er ég að tala um að semja og syngja lögin á staðnum, þegar ég labba heim úr ræktinni eða er í sturtu. Það er orðið langt síðan ég gerði það seinast. (Hæ mamma, hæ pabbi, hæ Árni Jón, þið þekkið þetta). Eins gott að maður fari að skrifa niður textana sem manni dettur í hug, en frægasta lagið mitt mun víst vera um hval sem fór út í sjoppu. Fyrir nánari upplýsingar, endilega spurja foreldra mína, þau muna þetta víst betur en ég.
Er síðan að fara á heimsendi þann 10. desember, það mun vera bloggað eftir það. Jólin líka, vá. Ekkert jólastuð hérna megin á hnettinum. Ekkert í gangi. Ojæja. Þið þarna ísklakarnir ykkar njótið bara snjósins ykkar... Kv. manneskja sem saknar ekki snjósins...
Vááááá, var að leggjast á magann núna fyrir framan tölvuna og er að njóta þess að teygja úr mér. Lærin mín eru dauð eftir boxæfingu í gær og er með sjúkar harðsperrur. Er ekki viss hvort það sé útaf spinning eða boxinu. Boxæfingar fara samt fækkandi, eru einungis 2 í viku núna því að þjálfarinn hefur mikið að gera í vinnunni sinni. Oftast mætir hann ekki á þær æfingar heldur, þannig við erum byrjuð að taka upp á því að hita okkur sjálf upp með 30 mínútna skokki úti, taka síðan einhver lóð og vinna á þeim, setja upp stöðvar og gera svona þúsund magaæfinar, en þær eru bara alltof mikilvægar. Ef við erum heppin mæta stóru gæjarnir (þá talandi um bæði hæð og massa) og geta hengt upp boxpúðana, en fyrir það þarf allavega tvo stóra gaura, því boxpúðarnir eru sjúkt þungir. Flestir eiga heldur ekki hanska, en þjálfarinn tekur alltaf með sér hanska, þannig ef hann mætir ekki, þurfum við að berja í púðana með umvafðar hendur, sem að þjálfar vöðvana betur en rífur í hnúana svo mikið að þú endist ekki lengi.
Æji, þetta er samt fínt. Kemst vonandi í samt lag í janúar, en ég far kannski að huga að því að tjékka á hönskum sjálf.
Jæja, ætla að enda þetta blogg og skila kveðju til allrar fjölskyldunnar, ömmu og afa á Seyðó, ömmu og afa í Kópavogi, prófstressuðum MR-ingum (sem að líklegast ættu ekkert að vera að lesa þetta), öðrum vinum og öllum þeim sem langar í kveðju frá mér. Endilega dreifið henni.
Enda ég þá bloggið með þessari skemmtilegu mynd.
Bíddu eru argar verri en Íslendingar þegar kemur að því að vera sein?
ReplyDeleteFæ greinilega ekki kveðju frá þér þar sem ég bæði er ekki með prófstress og mig langar ekkert í kveðju frá þér :(
p.s elska sængina mína.
kv.Greipur konungur.
Það eru kannski bara fordómar eða ranghugmynd mín en ég geri mér það í hugarlund að argar séu kannski líka með hærri raddir. Þú ættir að finna tenginguna þar á milli skyldi ég hafa rétt fyrir mér eins og svo oft áður, Greipur PRINS.
ReplyDeleteKv. Haraldur hárfagri
Greipur, Íslendingar eru fínasta fyrirmynd í að mæta á réttum tíma miðað við Argana. Oftast mæta þeir ekkert, og það er ekki talið vera seint að mæta 2 klst of seint.
ReplyDeleteHvað varðar kveðju, þá færðu hana hvort sem þú vilt hana eða ekki, þar sem þú flokkast þá greinilega undir ''Aðrir vinir''. Og ég hata þig og sængina þín...
Haraldur, það er í rauninni hárrétt hjá þér, engar djúpar raddir hérna, óskaplega erfitt að finna gaur sem gæti mögulega verið bassi..