Jæja, þá er víst kominn tími á annað blogg og ég hef engan veginn nennu til að skrifa þessa massífu ritgerð, og finn ég til með ykkur sem ætlið að lesa þetta allt. En ef þið lifið af, endilega skilja eftir komment!
Jæja, áður en ég fór í ferðalag suður á bóginn var ég að standa í veseni með vinkonu minni. Þannig var mál með vexti að hún lenti á frekar leiðinlegri fjölskyldu, þar sem mamman er einhver frú í AFS þannig að það má ekki snerta hana, þannig þessi vinkona mín getur ekki kvartað. Sérstaklega þar sem að trúnaðarmaðurinn hennar var besta vinkona móður hennar. Ég og vinir mínir vorum a berjast fyri því að hún myndi kvarta, eða að minnsta kosti skipta um trúnaðarmann, en það var vesen þar sem hún var hrædd við að hlutirnir myndu versna. Hún var bókstaflega notuð á heimilinu í að baða hundana, þvo þvottinn og diskana, hún mátti sjaldan fara út til að hitta vini sína, sérstaklega skiptinema og SÉRSTAKLEGA stelpurnar frá norðurlöndunum (semsagt ég og Lilja frá Noregi) þar sem að við vorum greinilega með of sterk áhrif á hana þannig að hún byrjaði að standa upp fyrir sjálfri sér.
Allavega, ég var eitthvað að vesenast í þessu fyrir hana í AFS og tala við fólk sem hægt var að treysta og fékk trúnaðarmanninn minn til að gerast trúnaðarmaður hennar. Hún er nú búin að finna nýja fjölskyldu og flytur til hennar í lok janúar, en þar til verður hún að vera hjá þessari hræðilegu fjölskyldu. Þegar hún kemst loks úr þessu húsi, ætlum við, vinir hennar, að senda bréf til AFS international til þess að þessi hörmulegi kvenmaður geti aldrei tekið þátt í neinu hvað varðar AFS aftur, en hún er búin að vera að taka inn skiptinema frá Asíu (því að þeir eru meira undirgefnir) seinustu 10 árin og er að fá peninga undir borðið fyrir það! Greinilega búin að vera sama sagan hjá öllum hinum skiptinemunum hennar, sem er hræðilegt! En núna fer þetta að batna, vonandi.
Já, og ég klippti svo hárið á mér sæmilega stutt. Er að fíla það í botn.
Ég síðan hunskaði mér í ferðina suður að El Calafate, og sá landið í leiðinni. Mikil eyðimörk þar sem að ég þurfti að ferðast í gegnum Patagóníu. Ég ferðaðist meðfram ströndinni og sá sjóinn í fyrsta skipti í 4 mánuði. Það var yndislegt! Við stoppuðum á nokkrum stöðum og hver ströndin var fallegri en hin! Fallegasta ströndin var svo í Puerta Madryn, en þar var fínn hvítur sandur, ótrúlega fallegt landslag og brennandi hiti! Yndislegur staður! Allavega, við fórum í rútu og þetta var alveg sæmilega langt ferðalag, þannig að fyrstu nóttina sváfum við í rútunni. Get ekki sagt að ég hafi sofið vel né mikið, en allavega næstu nótt stoppuðum við í Rivadavía og gistum á hóteli þar. Ekkert æðislega fallegur bær, en var þó við ströndina og hótel herbergin voru actually hótel herbergi, en ekki þetta sama rusl sem er fært manni af AFS, þar sem maður sefur á grjóthörðum beddum með 5 öðrum í herbergi, eitt baðherbergi og hart brauð og vont kaffi í morgunmat. Nei, maturinn var líka alveg ágætur. Við fórum svo í útsýnisferð um bæinn morguninn eftir, þó að það var nú heldur lítið að sjá. Lögðum síðan af stað aftur um hádegi og ferðuðumst fram til hádegis daginn eftir, en þar fór enn önnur nótt í rútunni áður en við komum loks að El Calafate.
El Calafate er yndislegur bær, lítill og fallegur. Dálítið gamaldags og ráááááándýr! Ótrúlega fallegir hlutir þarna! Ég féll fyrir spiladós sem spilar hluta úr tangó, stuttermabol sem hefur mynd af kind klífandi upp jökul og armband með hefðbundnu munstri frá Patagóníu. Þurfti síðan líka að kaupa einhverjar gjafir handa fjölskyldunni, svoleiðis er venjan. Keypti hálsmen handa bróður mínum og systur, litlu systur minni gaf ég litla kind sem var alltof krúttleg. Gaf ég svo foreldrum mínum cerveza artesanal (náttúrulegur bjór frá Patagóníu, á víst að vera sjúklega góður) og svakalega flott te handa föður mínum, þar sem hann má lítið drekka bjór.
Síðan fór ég í 3 excurciones, man ekki orðið fyrir þetta (bæbæ íslenska). Byrjuðum á 2 tíma reiðtúr sem var kósý en frekar hægur. Hestarnir voru algjörlega heilaþvegnir og neituðu að gera neitt sem var úr takti við hópinn. Ég var orðin sæmilega pirruð að vera að fara á hraða snigilsins. En það skánaði þegar við komum aftur á sveitabæinn þar sem boðið var upp á köku og maté og tekið þátt í leik. Þannig var leikurinn að það var nagli negldur við veginn og beygður. Síðan hékk hringur á snæri úr loftinu og markmiðið var að sveifla hringnum þannig að hann myndi festast á naglanum. Sjúklega erfitt og í endann þá voru það bara tveir úr 30 manna hópnum sem náðu því; Trúnaðarmaðurinn minn, Franco, og ég! Stolt ^-^
Næsta dag fórum við svo í minitraekking, semsagt sett tennur á fæturna og klifum upp jökul. Tók alls 3 tíma og var æðislega gaman. Þess má minnast að jökullinn hét Perito Moreno og er þriðji stærsti jökull í heimi! Ég var fyrst í röðinni og var að dýrka að geta loks notað lopapeysuna mína! Í endann vorum við tekin niður að rótum jökulsins þar sem við fengum okkur dýrindis alfajores og drukkum wiský með klaka úr jöklinum! Síðum fórum við upp að skála og borðuðum nestið okkar þar. Þarna sveimuðu svo stærðar flykki sem kallast víst flugur þarna. Þær voru allavega tvisvar sinnum stærri en fiskiflugurnar okkar á Íslandi og það var krökkt af þeim! Hjálpaði heldur ekki að heyra að þær stinga. Ég var þó heppin og fékk bara tvær stungur. Síðan var Masa, vinur minn frá Japan, nógu heppinn að hitta á par frá Japan sem hafði akkúrat verið að klífa upp á jökulinn. Ég var örugglega sú eina sem þreyttist ekki af því að heyra þau tala japönsku og algjörlega neitaði að tala ensku við þau, þótt þau kunnu hana, og lét bara Masa þýða fyrir mig úr spænsku. Ég reyndi líka að bjarga mér með þau fáu orð sem Masa er búinn að kenna mér, hahah :D
Hitti síðan mann frá Englandi á bátinum á leiðinni heim í höfn og hóf samtalið á spænsku, en þurfti svo að skipta yfir á ensku, mér til mikilla óþæginda þar sem enskan mín er orðin meira og minna brotin. Það versnaði síðan þegar ég komst að því að þessi gaur var enskukennari á Englandi. Ég hóf samtal við hann þar sem hann var í skyrtu frá háskóla Íslands og var forvitin, spurði hvort hann hefði farið til Íslands. Hann bjó víst þar í einhverja 3 mánuði og er búinn að vera að ferðast um heiminn svona! Hann t.d. var að ferðast um Suður-Ameríku á 6 mánuðum og ætlaði næst að sigla yfir til Chile! Þetta er eitthvað sem mig myndi dreyma um að gera! (líka því hann var að pæla í að GERA eitthvað, ekki bara að chilla á sólarströnd, hef virðingu fyrir þessum gaur).
Allt í góðu, síðan morguninn eftir var 7 tíma ferð á stöðuvatninu þar sem við gátum séð slatta af jöklum. Ótrúlega fallegt en varla peninganna virði, þar sem flestir sváfu megnið af tímanum.
Ég og trúnaðarmaðurinn minn náðum nokkuð vel saman í þessari ferð. Kom í ljós að hann er actually epísk manneskja! Við vorum bara að hafa það rólegt í rútunni þegar ég tók eftir því (á milli þess sem Masa var að stela koddanum mínum) að Franco (trúnaðarmaðurinn minn) var að spila pokémon í tölvunni sinni. Ég nottla flippaði og einnotkaði tölvuna hans það sem eftir var, spilandi pokémon. Æðislegur leikur ^^ Einnig bonduðum við yfir Charlie the unicorn, þar sem á random tímum yfir ferðina byrjuðum við að syngja ''PUT A BANANA IN YOUR EEEEAR, YAY!'' og ''You're the banana king, Charlie!'' og ''Come to the candy mountain Charlie!'' og ''I AM the banana king!'' og ''Guys? Guuuuys? Ah, shit, not again!''. Endaði á því að ég keypti banana handa Franco og það var án alls gríns besta gjöfin sem hann hafði fengið þangað til! Þess má einnig minnast að allar stelpurnar í ferðinni voru að deyja yfir honum, þar sem þessi gaur er nú alveg sæmilea heitur. Fannst það frekar fyndið hvað þær voru allar að sleikja sér upp að honum.
Svo mynduðust hvorki meira né minna 4 pör úr þessum 30 manna hópi sem fór í ferðina! Frekar næs.
Jæja, þá var kominn tími til að snúa til baka og þurftum við enn og aftur að ferðast og sofa mikið í rútunni. Við stoppuðum til að borða hádegismat í Río Gallego, en við fengum klukkutíma til að róma um bæinn. Lilja og ég lögðum af stað í dauðaleit af bókabúðum en fundum bara þær sem voru lokaðar. Greyið Lilja viðurkenndi það svo að við værum einungis vinkonur því ég er með sæmilega vel innbyggt ratskyn og hún hafði ekki glóru um hvar hún var á endanum. Við fundum síðan eina búð þar sem ég keypti mér maté (semsagt málið undir jurtina) og var það alveg fallega lime-grænt. Mun ég svo kaupa annað einhvern tíman seinna sem er aðeins meira í anda Argentínu!
Við stoppuðum í Puerta Madryn, æðislegur bær! Gistum á 4 stjörnu hóteli, borðuðum 4 rétta máltíð og gistum á 8. hæð með æðislegu útsýni yfir sjóinn og ströndin beint á móti! Leiðinlegt að við fengum bara eina nótt þar, og megnið af deginum sem við eyddum þar fór í túr um fylkið, semsagt ekki um bæinn og vorum því að túrast eitthvað um eyðimörkina þar sem einhver gella benti á eitthvað áhugavert en flestir voru sofandi innan við 15 mínútur. Næsta dag og nótt var svo eytt í rútunni. Um nóttina voru allir sofandi og einu ljósin í rútunni voru hjá mér og Masa þar sem hann var að reyna að kennar mér Truco, hefðbundið og ótrúlega flókið spil Argara. Þvílíkt kerfi á bakvið þetta spil en á innan við klukkutíma vann ég hann auðveldlega. En síðan var nú farið að sofa, kannski af hluta til því hann vildi ekki tapa fyrir mér aftur ^-^
Jæja, komumst við svo loks aftur til Neuquén þar sem var brennandi hiti. Þeir fáu dagar þar sem ég naut þess að það væri ekki alltof mikill hiti, voru liðnir. Strax morguninn eftir var skottast á hitting með yfir 35 skiptinemum (skrítin sjón á götum Neuquén, þar sem flestir voru ljóshærðir (að mati Argara, allavega)), ég bauð upp á terreré (maté gert með djúsi í stað heits vatns) og síðan fórum við og fengum okkur ís. Að lokum fórum við 4 að ánni og stungum okkur í yndislega þægilega svalt vatnið. Besta tilfinning sem til er!
Jæja, svo fór ég niður í bæ í gær til að hitta Niks, þýsku vinkonu mína, og spænskukennarann okkar, Tania, sem er snillingur. Ég og Niks vorum akkúrat að útskrifast úr fyrsta námskeiðinu í spænsku og þar sem þetta var lok skólaársins fórum við á kaffihús, nánar tiltekið Havanna (ó, hve yndislegt er þetta kaffihús). Vildi líka svo til að ég hitti á Masa niðri í bæ þar sem hann hélt á nýkeyptri afmælisgjöfinni minni, og gaf mér hana strax. Fékk ótrúlega fallegt skartgripaskrín frá honum, lítið egg, blátt á litinn með gylltum blómum teiknuðum yfir það. Fyrsta afmælisgjöfin komin í hús! Svo á maður afmæli á morgun og fær þá einhverjar gjafir. Það verður meira að segja haldið upp á það, þvílíkt fjölskylduboð, báðar fjölskyldurnar koma í hús (semsagt frá móður minnar og föður míns hlið) með kökur og gúmmelaði. Ég væri alveg til í að segja að þetta væri bara fyrir mig, en bæði ég og faðir minn eigum afmæli á morgun, þannig við höldum upp á þetta saman. Aðeins tveir vinir mínir koma í boðið á morgun en ég held síðan annað eftir jól fyrir alla vini mína þar sem við förum niður að á og böðum okkur í sólinni (líklega í eina skiptið sem ég mun geta haldið afmælið mitt í þvílíkri blíðu).
Jæja, ég segi þetta gott, og læt nokkrar myndir fylgja. Gleðileg jól til ykkar allra!
Ég og Ronja, þýsk vinkona mín
Ég og Masa í Rivadavía
Jólasveinninn hérna gengur um í stuttbuxum og fer að sörfa
Franco, takandi hópmynd fyrir alla. Eftir að þessi mynd var tekin, bættust við 6 myndavélar
Hópmynd, allir skiptinemarnir sem fóru í þessa ferð
Ronja við hliðina á skilti sem segir hvað eru margir kílómetrar í stærstu heimsborgirnar
Skiptinemarnir sem fóru í reiðtúr á heilaþvegnum hestum
Ronja með dauða kanínu
Ég, Ronja og Lilja á leiðinni í Minitraekking
<3
Perito Moreno jökullinn
Báturinn sem við tókum yfir til jökulsins
Verið að setja tennur á skóna mína
Ég og Ronja standandi á 3. stærsta jökli í heimi
Eins konar íshellir
Ronja, Lilja, ég og Masa
Ég og Franco, trúnaðarmaðurinn minn
Æðislegt útsýni!
Hópmynd!
Ég haldandi á hluta af jöklinum
Útsýnisstaður fyrir ofan Puerta Madryn
Lilja lesandi á ströndinni, með kjólinn minn og skyrtuna mína undir sér!
/Njóta sólarinnar
Gjöf sem við gáfum Franco; ''Más que un voluntario; Un amigo'' sem þýðir ''Meira en sjálfboðaliði; vinur'' og síðan undirskriftir frá öllum í ferðinni