Ferðasagan

Koma : 18. ágúst 2011

Heimför: 18. júlí 2012

Tuesday, 17 January 2012

Gotti borðar ost

Jæja, hvar á svo að byrja. Æj, já, afmælið mitt! Næstum kominn einn mánuður síðan!

Allavega, afmælisdagurinn minn var frábær! Ég held að ég geti sagt að þetta hafi verið besta afmæli sem ég man eftir! Ég beið fram að miðnætti þann 22. desember og var kominn með kassann niður, sem foreldrar mínir sendur mér, með ýmist afmælis- og jólagjöfum frá familíunni! Þegar klukkan sló miðnætti var ráðist á mig og pabba minn, en við eigum bæði afmæli á sama degi. Skotið var á okkur kveðjum úr öllum áttum og ég fékk þónokkur skilaboð í símann minn. Ég tók svo upp gjafirnar og fékk þá slatta af fötum, leggings þar á meðal, náttbol, síðann, ermalausan bol, þunna hettupeysu (sem ég get þó ekki notað fyrr en í vetur), inniskó, besta-systir-bolla (getið frá hverjum) og loks fékk ég fallega teikningu frá litlu systur minni og stórkostlegt teiknisett frá foreldrum mínum hérna! Faðir minn tók síðan upp sinn pakka, sem var nú ekkert en glænýtt golfsett! Frábær byrjun á góðum afmælisdag.

En þá fór ég að sofa og daginn eftir hjálpaði ég til með að gera heimilið til fyrir afmælisveisluna það kvöldið. Ég sópaði veröndina og þreif gluggana og svona þar til að Masa kom í heimsókn og þá sendi systir mín mig í burtu, segjandi að það væri nú afmælisdagurinn minn, að ég ætti ekki að þurfa að gera þetta.

Um kvöldið, svona um 8 leytið byrjaði húsið að fyllast, og við vorum með hoppukastala út í garði fyrir litlu krakkana (þó ég hafi nú tekið mér leyfi til að hoppa aðeins þar...). Bornir voru fram típískir argentískir réttir og svo á slaginu miðnætti voru settar fram tvær stórkostlegar kökur, ein súkkulaðikaka með kertanúmerunum 17 ætluð mér og ein maregnsterta með kertanúmerunum 69 ætluð föður mínum. Það er víst til video af því þegar við blésum kertin og á víst að gefa mér eintak af því svo ég geti tekið það með mér til Íslands þegar tíminn kemur. Jæja, það voru svo yfir 50 manns í þessu boði! Þetta var frábær dagur sem ég mun aldrei gleyma!

Svo daginn eftir voru nottla jólin. Fjölskyldan svaf fram til hádegis og vorum bara að slaka á allan daginn. Það var óvenju kalt þann dag, aðeins 28 gráðu hiti þannig við fórum ekkert að ánni eins og flesta daga. Svo um kvöldið, um níu leytið fórum við að skipta yfir í ágætu fötin og farið yfir til frænku minnar, systur móður minnar, en hún á hús aðeins fyrir utan borgina sem er á akri þar sem þau rækta kirsuber og epli. Maturinn var ágætur, fínasti kjúklingur sem frænka mín eldaði. Við borðuðum um hálf ellefu leytið og svo á slaginu miðnætti var óskað gleðilegra jóla og farið út að skjóta upp flugeldum (sem voru þó ekkert miðað við þá flugelda sem sjást á hinu íslenska gamlárskvöldi). Svo um hálf tvö leytið kom jólasveinninn, meðan við vorum ennþá úti. Krakkarnir hlupu til að reyna að ná honum, en sáu hann rétt svo hverfa inn í skóginn. Sneru þau svo að húsinu hlaupandi og fundu gjafir handa öllum þar! Ég fékk hvítar stuttbuxur og sjógrænan kjól, ótrúleg flott! Litli frændi minn fékk svo fjarstýrðan bíl en ég vil meina að við unglingarnir höfðum meira gaman af honum heldur en flest börnin...

Þess má minnast að það voru allir að deyja úr kulda á meðan ég var róleg í stuttbuxum og stuttermabol xD

Svo liðu dagarnir, flestir vinir farnir eitthvað í frí yfir hátíðirnar. Ég og Lilja hittumst oft til að fara að ánni og lesa og hafa það kósý, eins og við norðlendingarnir einir þekkjum.

Á gamlárskvöldi fórum við svo til Roca þar sem var lagt á borð fínustu rétti sem fylltu tvö borð! Það var bara hlaðborð og troðist að matnum. Dagurinn sjálfur var með þeim heitari þessa tíð, 40 gráður, jafnvel um kvöldið! Sem betur fer var sundlaug í garðinum hjá frænku minni þannig maður eyddi öllum deginum í bikíníunum sínum (eins og reyndar flestum dögum). Um kvöldið var svo borðað, þó að ég reyndar var vel veik um þetta leytið og gat því ekki látið neitt ofan í mig, hvorki mat né eftirrétt. Ég rétt svo náði að sjá flugeldana á miðnætti (sem voru stórkostlegir!) áður en ég beinlínis datt niður í sófann og lá þar í veikindismóki það sem eftir lifði nætur. Þvílíkt leiðinlegt að muna eftir áramótunum svona :(

Heyrðu, svo er hitinn hérna orðinn svo rosalegur að ég hef tekið upp á því að sofa niðri í stofu. Þar sem herbergið mitt er á efri hæðinni og þar sem það er ekki nein loftkæling í því, þá deyr maður af hita á næturnar, þannig ég flutti mig niður í sófann í stofunni og hef sofið þar seinustu 3 vikurnar og sé fram á að þurfa að gera það fram undir lok febrúar. En þökk sé þessu, þá er ég komin með yfir 30 moskítóbit því að það er ekki flugnanet fyrir gluggunum í stofunni. Virkar lítið að láa moskítófæli á sig. En ég vel moskítóbit yfir svefnlausa nótt hvenær sem er. Þó að það er nú líka orðið erfitt að sofa niðri eins og er. Bara fyrir tveimur dögum svaf ég ekkert um nóttina vegna hita, en svitadroparnir bókstaflega láku af enninu. Mér skilst þó að foreldrar mínir séu að vinna í að kaupa loftkælingu, guði sé lof!

Jæja, svo var fremur erfiður dagur í gær fyrir alla skiptinema, en það var brottfarardagur fyrir þá sem komu í febrúar eða þá sem komu í ágúst í hálfs árs dvöl. Sex skiptinemar kvöddu Neuquén; Masanori frá Japan, Renato og Alexa frá Ítalíu, Lara og Inanna frá Sviss og Kwan frá Taílandi. Skiptinemar og fjölskyldur söfnuðust saman á rútustöðinni, þar sem þau myndu ferðast með rútu til Buenos Aires fyrir lokanámskeiðið þeirra. Þetta var ótrúlega erfitt, þannig að auðvitað bakaði ég súkkulaðiköku handa fólkinu og framkallaði og innrammaði sex myndir til að gefa farandi skiptinemunum, en myndin var af þeim skiptinemahópi sem var í Neuquén. Vildi að ég gæti ennþá sagt er... En þannig var að fjölskyldurnar voru grátandi, vinir voru grátandi, skiptinemarnir sjálfir voru grátandi. Erfiður dagur og ég mun sakna þeirra allra. Þetta er það erfiðasta við skiptinámið, býst ég við. Þú kynnist fólki en þarft svo að kveðja það, ekki vitandi hvenær eða hvort þú munt hitta þetta fólk aftur. Loks kom tíminn, þeir voru kallaðir út í rútu og allir voru að kveðjast í hinsta sinn. Ég get ekki lýst þeirri tilfinningu sem tók yfir mig þegar ég sá þau í hinsta sinn veifa frá rútunni... Og hugsandi, þetta verður ég eftir 6 mánuði. Já gott fólk, það eru núþegar liðnir fimm mánuðir og sex mánuðir eftir. Tíminn líður of hratt að mínu mati.

Jæja, það þýðir ekkert að væla um þetta og bara njóta þess tíma sem er eftir með þeim vinum sem eru eftir!

Á morgun er fjölskyldan mín svo að fara að taka á móti tveimur skiptinemum í tvær nætur, en þær ferðast frá Rosario hingað til Neuquén til að fara í ferð suður að sjá jöklana (þá sömu sem ég fór í seinasta mánuð) og þær þurfa stað til að gista á. Þar á meðal er Bryndís, íslenskur skiptinemi og Liv, frá Þýskalandi. Ég mun svo taka að mér það verk að sýna þeim bæinn og ánna. En svo þann 21. janúar ferðast ég með fjölskyldunni minni til Necochea, sem er strönd í Buenos Aires fylkinu og munum við eyða viku þar, einungis í sólbaði og gera ekki neitt. Hljómar bara nokkuð vel fyrir mig!

Jæja, ég myndi síðan láta inn nokkrar myndir, en er búin að týna snúrunni til að hlaða niður myndum úr myndavélinni minni, þannig það verður að bíða þar til ég finn hana eða kaupi nýja. Ég bæti bara við fleiri myndum á næsta bloggi!

Í endann vil ég segja að ég er að deyja úr hita hérna. Þetta er víst heitasta sumar sem hefur verið í langan tíma! Allir eru að bráðna hérna úr hita, og varla er lifandi hundur úti fyrir á daginn! Svona er það nú að það er víst heita hérna en í þeim fylkjum fyrir norðan, en þar er vanalega sjóðandi hiti! Svo gerðist það í kvöld að það rigndi, með þrumum og eldingum og öllu. Það er frábært tímabundið, þar sem ég get þá líklegast sofið í herberginu mínu í nótt, en á morgun verður hiti með raka, sem er þá öllu verri.... Óskið mér góðs gengis!

Góða nótt, ég er farin að sofa!