Ferðasagan

Koma : 18. ágúst 2011

Heimför: 18. júlí 2012

Friday, 16 March 2012

Ú Í Úllala

Hæhó gott fólk, nú er ég komin að skrifa eitt blogg, þótt ég sé dauð eftir daginn og langar bara helst til að fara að sofa. Áður en ég byrja á því hvernig sumarfríinu lauk og hvað tók við, ætla ég að lýsa deginum í dag. Skóli, meiri skóli, hausverkur, aðeins meiri skóli, heim, út að hlaupa í steikjandi sól, ipodinn dó, heim, úber tens boxæfing, heim, skrifa þetta.

Ókei, semsagt, sumarfríið búið, og ætla að setja einn fílukall við það :( en samt ágætt að byrja aftur í skólanum þótt ég þurfi nú að gera eitthvað núna þar sem ég er mikið færari á spænsku en ég var fyrir sumrfrí. Þannig var það að ég kláraði sumarið með stæl og fór í argentínska útilegu með familíunni og öðrum ættingjum. Það var farið upp að landamærunum (besta þýðingin mín á la cordillera) þar sem Chile liggur. Mikið meiri náttúra þar, jafnvel þótt við séum stödd í Patagóníu. Landslagið minnti mig líka ótrúlega mikið á Ísland! Útskýringin er líklega sú að þetta svæði er mjög virkt eldfjallasvæði. Það var meira að segja kalt á næturnar! Ég svaf í litlu tjaldi og ég var að drepast úr kulda, sem hefur ekki gerst í laaaaangan tíma!

Þetta var annars æðileg útilega, tjölduðum upp við á og leigðum okkur kanóa. Endaði á því að ég þurfti að leiða kanóann fyrir hina unglingana því að enginn kunni að stýra. Var sjúklega gaman. Fór síðan með bróður mínum (sem er 40 ára) niður flúðir! Við veiddum síðan fisk, þótt það hafi verið bannað á þessu svæði, uss... Og grilluðum hann svo yfir eldi um kvöldið. Þau voru alltaf að spurja mig hvenær fiskurinn væri tilbúinn því að ég er nú sérfræðingurinn hérna í fiski! Hahaha!

Allavega, þetta var seinasta helgin. Núna er ég komin aftur í skólann, skila inn verkefnum, lesa bækur, fara í tilgangslausa enskutíma og íþróttir í steikjandi hita. Já, og ég er ekki lengur eini skiptineminn í skólanum, en Niks, þýski skiptineminn var að skipta yfir í skólann, á móti hennar vilja. Foreldrar hennar settu hana bara í skólann! Og síðan er ein stelpa frá Bandaríkjunum, á greinilega að vera módel. Óskaplega næs stelpa og er hér á vegum annara samtaka. Hún þarf að fara í enskutíma, jafnvel þótt að enska sé móðurmálið hennar... Alveg fáránlegt!

Hmm já, hvað annað, jú, ég byrjaði aftur í boxinu, svaka stuð að byrja aftur, var orðin smá ryðguð og var með svoleiðis harðsperrur eftir fyrstu æfinguna að ég gat ekki gengið upp stigann hérna í húsinu mínu. Huggulegt. Annars er þetta betra núna. Fullt af nýju fólki byrjað í tímanum, flestar stelpur. Sjáum til hversu lengi þær endast. Get ekki talið þær stelpur sem hafa komið, mætt yfir eina viku og svo gefist upp. Við erum samt 2-3 stelpur sem mætum vanalega.

Annars er Rodí, þjálfarinn minn, búinn að setja mér fyrir æfingaprógram fyrir utan æfingar. Þannig er það að ég er víst orðin ágætur boxari og ég get hlaupið eins og andskotinn, en þarf samt að bæta mig í viðbrögðum. Hann vill skrá mig í mót áður en ég kem aftur heim þannig að núna er ég byrjuð á kúr og þarf að hlaupa 30 mínútur á hverju degi, helst um morguninn. Mun víst þurfa að vakna klukkan 5 á skóladögum til að fara út að skokka... Þess virði samt. Og svo þarf ég að bæta við styrktaræfingum, s.s. kviðæfingar og fætur. Ég sver, ég verð komin með 6-pack þegar ég kem heim, ég geri svo mikið af kviðæfingum!

Já, boxið er svo 3 í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en þjálfarinn minn bauð mér á aukaæfingar með öðrum hóp niðri í miðbæ á þriðjudögum og föstudögum, þannig þetta verður fjör!

Og svo þarf ég að sækja sendingu frá Íslandi, frá elskulegu foreldrum mínum, en þau voru svo góð að senda mér eitthvað nammi, bækur og myndir frá Íslandi! =D En pósturinn hérna er alltaf eins vangefinn. Vona að ég geti sótt pakkann á mánudaginn.

Jæja njótið svo þeirra fjóra mánaða sem eru eftir án mín, en það eru rétt svo 4 mánuðir eftir, andskotinn hafi það. 7 mánuðir liðnir. Ekki nógu gott.

Nóg um það, góða nótt gott fólk!

(snúran fyrir myndavélina ekki fundin, engar myndir ennþá)

Saturday, 18 February 2012

Íslendingar, ströndin og hiti

Jæja, nú er orðið langt síðan ég hef skrifað eitthvað, ég er búin að vera úber löt í sumarfríinu mínu, enda lítið að gera hérna nema að drekka maté í miðbænum með einhverjum vinum. En ojæja. Um daginn, áður en við fórum á ströndina, komu einhverjir skiptinemar úr öðrum fylkjum til Neuquén til þess að fara í jöklaferðina sem ég fór í í Desember, og þar á meðal kom einn íslendingur, hún Bryndís!

Mín familía hýsti hana Bryndísi og vinkonu hennar, Liv, í tvo daga minnir mig. Þá var tekinn hinn hefðbundni túr um Neuquén, sem er alltaf settur á mínar axlir þar sem ég þekki borgina best... En allt í góðu. Við byrjuðum á því að fara niður í miðbæ, en það hitti akkúrat á rigningatíð, þannig að það rigndi nógu mikið til þess að það var erfitt að fara yfir göturnar án þess að verða rennblautur í fæturna! Það var ágætlega skemmtilegur dagur, hittum hinn íslendinginn, sem tók rútu í bæinn (býr klukkutíma í burtu), en það mun vera hún Hrefna. Ég fékk svo þær tvær með mér í að syngja afmælissönginn á video sem að vinkona mín ætlaði að senda til Masa, en hann átti afmæli 21. janúar og er nú þegar kominn aftur til Japan. Fékk mig einnig til að skreyta kort og gera einhverjar skemmtilegar teikningar fyrir hann, sem fóru nú bara út einhverja sýru... En þá fórum við á kaffihús, sem er bara klassík hérna úti (og líka alveg sæmilega dýrt...).

En ojæja. Síðan bara áin daginn eftir og étið ís í tonnatali, en ísinn hérna er svona þúsund sinnum betri en allur ís sem hægt er að finna á Íslandi, ekkert djók í gangi.  Það eru svona milljón brögð í boði, mín uppáhöld eru sítrónu, samboya (einhver eggjablanda), rómverskur rjómi, capuccino og dökkt súkkulaði.

Jæja, síðan stuttu eftir að krakkarnir voru farnir fór ég í 10 tíma langt ferðalag til Buenos Aires, fylkið semsagt, til að fara á ströndina. Bærinn hét Necochea og var sjúklega einfaldur, en göturnar virkuðu eins og hnitakerfi, eins og okkar hús var 65, 73 og miðbærinn var 5, 83. Jæja, það var síðan aðeins svalara þarna, guði sé lof, þar sem við vorum upp við sjóinn. Ég gat meira að segja notað yfirbreiðu meðan ég svaf! Síðan á hverjum einasta degi fórum við á ströndina. Einn morguninn ætluðum við að fara í rafting, því það var á þarna nálægt. Ég var að hlakka sjúklega mikið til að fara, en síðan vaknaði ég um hádegi og þá voru pabbi minn og bróðir þegar farnir en systir mín og móðir vildu ekki fara. Ég spurði afhverju þeir vöktu mig ekki og þau sögðu að þau hefðu gert það. Ég hafði sagt að mér væri óglatt og ég vildi ekki fara... Meira að segja spurðu mig tvisvar og systir mín, sem svaf í sama herbergi og ég heyrði mig segja það. Vandamálið er að ég man ekkert eftir því. Var ekkert smá pirruð út í sjálfa mig -.-

Ég elskaði miðbæinn! Langbestur á kvöldin, flestar götur lokaðar og allskonar sýnisatriði í gangi, handgerðir hlutir seldir á götunni og fleira skemmtilegt. Bærinn var sæmilega fullur, samt alveg nóg pláss til að labba. Fannst yndislegt að rölta bara um og skoða mannlífið. Keypti lítið ef það var ekki fatnaður en lét mér nægja að skoða.

Þetta var frábær ferð og var frekar leiðinlegt að þurfa að snúa aftur til Neuquén í hitann. Þess má geta að loftkælingin í bílnum virkaði ekki og við vorum 6 manneskjur í bíl gerðan fyrir 5 manneskjur, ásamt alls farangurs. 10 tímar af þessu gerðu alla hálf taugaveiklaða, þannig það var fínt að koma heim og ráðist var á sturtuna!

Síðan er ég bara búin að vera að láta dagana líða hjá, hitti vini, heng á facebook og tek The Big Bang Theory maraþon. Lilja, Manolya og ég gistum svo heima hjá mér um daginn og við tókum all-nighter, horfandi á The Big Bang Theory, My Little Pony Friendship Is Magic og síðan fékk Manolya okkur í að horfa á einn þátt af Doctor who. Ég og Lilja skitum næstum á okkur, þessi þáttur var fáránlega góður! Það eru víst til einhver video af okkur á bestu atriðunum og eru þau alveg nokkuð hlægileg. En fyrir þá sem horfa á Doctor Who, þá var þetta þátturinn um The Weeping Angels. Sjúkt.

Don't. Blink!

Allavega, síðan erum við Lilja búin að setja okkur það að fara niður í miðbæ allar helga og spila scrabble, en það eru lokaðar göturnar um helgar, sett upp bása með heimagerðum hlutum sem fólk er að selja, oft er hljómsveit að spila og svo nýlega er búið að setja upp spilasvæði þar sem hægt að spila annaðhvort skák eða scrabble. Við förum á morgun klukkan átta, líklegast borðum í miðbænum og spilum scrabble. Klassískt. Svo má ekki gleyma maté!

Svo erum við að fara í útilegu bráðlega. Veit ekki hvort það sé á sunnudaginn eða mánudaginn, en við erum víst ekki með neitt tjald, þannig það er pælingin að taka pallbílinn og gera einhverskonar tjald úr pallinum og síðan getur einhver sofið inn í bílnum. Þetta verður skemmtilegt að sjá!

Heyri í ykkur í næsta mánuði!

Nákvæmlega 6 mánuðir búnir, 5 mánuðir eftir. Tíminn líður!



Tuesday, 17 January 2012

Gotti borðar ost

Jæja, hvar á svo að byrja. Æj, já, afmælið mitt! Næstum kominn einn mánuður síðan!

Allavega, afmælisdagurinn minn var frábær! Ég held að ég geti sagt að þetta hafi verið besta afmæli sem ég man eftir! Ég beið fram að miðnætti þann 22. desember og var kominn með kassann niður, sem foreldrar mínir sendur mér, með ýmist afmælis- og jólagjöfum frá familíunni! Þegar klukkan sló miðnætti var ráðist á mig og pabba minn, en við eigum bæði afmæli á sama degi. Skotið var á okkur kveðjum úr öllum áttum og ég fékk þónokkur skilaboð í símann minn. Ég tók svo upp gjafirnar og fékk þá slatta af fötum, leggings þar á meðal, náttbol, síðann, ermalausan bol, þunna hettupeysu (sem ég get þó ekki notað fyrr en í vetur), inniskó, besta-systir-bolla (getið frá hverjum) og loks fékk ég fallega teikningu frá litlu systur minni og stórkostlegt teiknisett frá foreldrum mínum hérna! Faðir minn tók síðan upp sinn pakka, sem var nú ekkert en glænýtt golfsett! Frábær byrjun á góðum afmælisdag.

En þá fór ég að sofa og daginn eftir hjálpaði ég til með að gera heimilið til fyrir afmælisveisluna það kvöldið. Ég sópaði veröndina og þreif gluggana og svona þar til að Masa kom í heimsókn og þá sendi systir mín mig í burtu, segjandi að það væri nú afmælisdagurinn minn, að ég ætti ekki að þurfa að gera þetta.

Um kvöldið, svona um 8 leytið byrjaði húsið að fyllast, og við vorum með hoppukastala út í garði fyrir litlu krakkana (þó ég hafi nú tekið mér leyfi til að hoppa aðeins þar...). Bornir voru fram típískir argentískir réttir og svo á slaginu miðnætti voru settar fram tvær stórkostlegar kökur, ein súkkulaðikaka með kertanúmerunum 17 ætluð mér og ein maregnsterta með kertanúmerunum 69 ætluð föður mínum. Það er víst til video af því þegar við blésum kertin og á víst að gefa mér eintak af því svo ég geti tekið það með mér til Íslands þegar tíminn kemur. Jæja, það voru svo yfir 50 manns í þessu boði! Þetta var frábær dagur sem ég mun aldrei gleyma!

Svo daginn eftir voru nottla jólin. Fjölskyldan svaf fram til hádegis og vorum bara að slaka á allan daginn. Það var óvenju kalt þann dag, aðeins 28 gráðu hiti þannig við fórum ekkert að ánni eins og flesta daga. Svo um kvöldið, um níu leytið fórum við að skipta yfir í ágætu fötin og farið yfir til frænku minnar, systur móður minnar, en hún á hús aðeins fyrir utan borgina sem er á akri þar sem þau rækta kirsuber og epli. Maturinn var ágætur, fínasti kjúklingur sem frænka mín eldaði. Við borðuðum um hálf ellefu leytið og svo á slaginu miðnætti var óskað gleðilegra jóla og farið út að skjóta upp flugeldum (sem voru þó ekkert miðað við þá flugelda sem sjást á hinu íslenska gamlárskvöldi). Svo um hálf tvö leytið kom jólasveinninn, meðan við vorum ennþá úti. Krakkarnir hlupu til að reyna að ná honum, en sáu hann rétt svo hverfa inn í skóginn. Sneru þau svo að húsinu hlaupandi og fundu gjafir handa öllum þar! Ég fékk hvítar stuttbuxur og sjógrænan kjól, ótrúleg flott! Litli frændi minn fékk svo fjarstýrðan bíl en ég vil meina að við unglingarnir höfðum meira gaman af honum heldur en flest börnin...

Þess má minnast að það voru allir að deyja úr kulda á meðan ég var róleg í stuttbuxum og stuttermabol xD

Svo liðu dagarnir, flestir vinir farnir eitthvað í frí yfir hátíðirnar. Ég og Lilja hittumst oft til að fara að ánni og lesa og hafa það kósý, eins og við norðlendingarnir einir þekkjum.

Á gamlárskvöldi fórum við svo til Roca þar sem var lagt á borð fínustu rétti sem fylltu tvö borð! Það var bara hlaðborð og troðist að matnum. Dagurinn sjálfur var með þeim heitari þessa tíð, 40 gráður, jafnvel um kvöldið! Sem betur fer var sundlaug í garðinum hjá frænku minni þannig maður eyddi öllum deginum í bikíníunum sínum (eins og reyndar flestum dögum). Um kvöldið var svo borðað, þó að ég reyndar var vel veik um þetta leytið og gat því ekki látið neitt ofan í mig, hvorki mat né eftirrétt. Ég rétt svo náði að sjá flugeldana á miðnætti (sem voru stórkostlegir!) áður en ég beinlínis datt niður í sófann og lá þar í veikindismóki það sem eftir lifði nætur. Þvílíkt leiðinlegt að muna eftir áramótunum svona :(

Heyrðu, svo er hitinn hérna orðinn svo rosalegur að ég hef tekið upp á því að sofa niðri í stofu. Þar sem herbergið mitt er á efri hæðinni og þar sem það er ekki nein loftkæling í því, þá deyr maður af hita á næturnar, þannig ég flutti mig niður í sófann í stofunni og hef sofið þar seinustu 3 vikurnar og sé fram á að þurfa að gera það fram undir lok febrúar. En þökk sé þessu, þá er ég komin með yfir 30 moskítóbit því að það er ekki flugnanet fyrir gluggunum í stofunni. Virkar lítið að láa moskítófæli á sig. En ég vel moskítóbit yfir svefnlausa nótt hvenær sem er. Þó að það er nú líka orðið erfitt að sofa niðri eins og er. Bara fyrir tveimur dögum svaf ég ekkert um nóttina vegna hita, en svitadroparnir bókstaflega láku af enninu. Mér skilst þó að foreldrar mínir séu að vinna í að kaupa loftkælingu, guði sé lof!

Jæja, svo var fremur erfiður dagur í gær fyrir alla skiptinema, en það var brottfarardagur fyrir þá sem komu í febrúar eða þá sem komu í ágúst í hálfs árs dvöl. Sex skiptinemar kvöddu Neuquén; Masanori frá Japan, Renato og Alexa frá Ítalíu, Lara og Inanna frá Sviss og Kwan frá Taílandi. Skiptinemar og fjölskyldur söfnuðust saman á rútustöðinni, þar sem þau myndu ferðast með rútu til Buenos Aires fyrir lokanámskeiðið þeirra. Þetta var ótrúlega erfitt, þannig að auðvitað bakaði ég súkkulaðiköku handa fólkinu og framkallaði og innrammaði sex myndir til að gefa farandi skiptinemunum, en myndin var af þeim skiptinemahópi sem var í Neuquén. Vildi að ég gæti ennþá sagt er... En þannig var að fjölskyldurnar voru grátandi, vinir voru grátandi, skiptinemarnir sjálfir voru grátandi. Erfiður dagur og ég mun sakna þeirra allra. Þetta er það erfiðasta við skiptinámið, býst ég við. Þú kynnist fólki en þarft svo að kveðja það, ekki vitandi hvenær eða hvort þú munt hitta þetta fólk aftur. Loks kom tíminn, þeir voru kallaðir út í rútu og allir voru að kveðjast í hinsta sinn. Ég get ekki lýst þeirri tilfinningu sem tók yfir mig þegar ég sá þau í hinsta sinn veifa frá rútunni... Og hugsandi, þetta verður ég eftir 6 mánuði. Já gott fólk, það eru núþegar liðnir fimm mánuðir og sex mánuðir eftir. Tíminn líður of hratt að mínu mati.

Jæja, það þýðir ekkert að væla um þetta og bara njóta þess tíma sem er eftir með þeim vinum sem eru eftir!

Á morgun er fjölskyldan mín svo að fara að taka á móti tveimur skiptinemum í tvær nætur, en þær ferðast frá Rosario hingað til Neuquén til að fara í ferð suður að sjá jöklana (þá sömu sem ég fór í seinasta mánuð) og þær þurfa stað til að gista á. Þar á meðal er Bryndís, íslenskur skiptinemi og Liv, frá Þýskalandi. Ég mun svo taka að mér það verk að sýna þeim bæinn og ánna. En svo þann 21. janúar ferðast ég með fjölskyldunni minni til Necochea, sem er strönd í Buenos Aires fylkinu og munum við eyða viku þar, einungis í sólbaði og gera ekki neitt. Hljómar bara nokkuð vel fyrir mig!

Jæja, ég myndi síðan láta inn nokkrar myndir, en er búin að týna snúrunni til að hlaða niður myndum úr myndavélinni minni, þannig það verður að bíða þar til ég finn hana eða kaupi nýja. Ég bæti bara við fleiri myndum á næsta bloggi!

Í endann vil ég segja að ég er að deyja úr hita hérna. Þetta er víst heitasta sumar sem hefur verið í langan tíma! Allir eru að bráðna hérna úr hita, og varla er lifandi hundur úti fyrir á daginn! Svona er það nú að það er víst heita hérna en í þeim fylkjum fyrir norðan, en þar er vanalega sjóðandi hiti! Svo gerðist það í kvöld að það rigndi, með þrumum og eldingum og öllu. Það er frábært tímabundið, þar sem ég get þá líklegast sofið í herberginu mínu í nótt, en á morgun verður hiti með raka, sem er þá öllu verri.... Óskið mér góðs gengis!

Góða nótt, ég er farin að sofa!